Wordpress 2.7, afmæli ofl.
Jæja.. soldið langt síðan ég setti inn færslu síðast =P
Ég er allavega búin að eiga afmæli síðan síðast, fórum í leikhús til að halda upp á það. Fórum og sáum að því sem ég held að sé síðasta sýningin af Laddi 6-tugur í Borgarleikhúsinu. Miðað við það sem maður var búin að heyra um show’ið þá átti ég von á meiru en raun bar vitni, en þetta var engu að síður frábært hjá honum. Maður sá að vísu að hann var orðinn soldið (understatement aldarinnar) þreyttur á þessu og honum hefur eflaust hlakkað til að klára sýninguna.
Annars uppfærði Wordpress hjá mér í 2.7 og er að dást að því hversu vel þeim tókst með nýju útgáfunni. Búið að AJAX væða allan bakendan og gera þetta líka sætan! Er að leika mér að skoða allt og ekkert og sjá hvort það sé eitthvað hérna sem gefur manni hugmyndir til að bæta mögulega við í eitthvert af kerfunum mínum sem ég er búinn að vera að malla.
Strákurinn var reyndar frekar vondur við systur sína núna um helgina.. Ákvað að klemma á henni tánna (óviljandi náttúrulega) á hurð þannig að það blæddi töluvert undir nöglinni. Fórum í gær með dömuna á heilsugæsluna hérna í Mjódd þar sem læknirinn boraði agnarsmátt gat á nöglina til að létta af þrýstingnum. Henni fannst það bara allt hið besta og var ekkert að stressa sig á þessu, stóð sig eins og hetja, annað en ég hefði gert, og horfði bara á ljósmyndir sem ég hef tekið af þeim systkynum með símanum mínum.
Strákurinn kom reyndar með algeran gullmola núna í dag. Þarfnast reyndar smá útskýringar á því hvað hann átti við. Málið er að núna fyrir helgi þegar Hanna Sigga (tengdó) kom til okkar, stóð til að hún kæmi eftir að krakkarnir væru komnir heim af leiksskólanum á föstudaginn. Nema hvað, hún var laus vel fyrir þann tíma þannig að það var hægt að ná í hana áður en krakkarnir kæmu heim. Sem var gert. En við frúin höfðum verið að tala við krakkana að amma þeirra yrði sótt eftir að þau kæmu heim og væru komin í helgarfrí. Ég ákvað að vera voða flottur á því hinsvegar og “töfraði” hana fram þegar krakkarnir komu heim, sagði þetta fína líka “hókuspókusfílarókus” og veifaði höndunum og allt í einu labbaði sú gamla fram úr eldhúsinu þannig að þau sáu hana er þau voru að koma inn úr anddyrinu.
Svo núna í dag þegar við feðgarnir vorum að skjótast á bílnum útí búð að versla smá vildi hann fá að vita hvert við værum að fara, ég sagði honum að hann fengi að sjá það eftir smá stund (var að einbeita mér að akstrinum) og hann innti alltaf eftir svörum, spurði aftur og aftur. Fór svo að tala um það að við værum ábyggilega að fara að ná í “ömmusiggu” (lesist: ömmu Hönnu Siggu). Allavega, rétt áður en við beygðum inn á planið hjá búðinni, þá heyrist í honum: “þú bara svona.. púff.. hókuspókus .. og hún komin! JÁ! GERA ÞAÐ!”.
Hann vildi semsagt að ég myndi bara töfra hana til okkar og trúir því statt og stöðugt að ég sé alger galdramaður. Vill hinsvegar ekki að ég töfri á mér þumalputtann lausann.. er víst hræddur við það greyið.
Ég verð nú að tjá mig aðeins um eina frétt sem mér var bent á fyrr í kvöld á Morgunblaðs vefnum.. Ég sá titilinn á hlekknum og sá bara “bolti.. leggöng..” og hugsaði með mér: “jæja.. enn ein heimskulega fréttin frá BNA” nema hvað.. svo las ég fréttina og kjálkinn datt í gólfið! Þetta var á endanum bara íslensk frétt! (sjá: mbl.is)