Partur af mér


Underworld

Það er nafn sem margir, en ekki allir þekkja. Ég er ekki að tala um vampíru kvikmyndirnar sem Kate Beckinsale leikur í, ég er að tala um bandið sem var stofnað 1987 í Wales og er enn virkt.

Trainspotting

Flestir muna eftir myndinni Trainspotting og þá jafnvel líka einu af aðal lögunum úr myndinni sem heitir Born Slippy:

Þetta band og lög þeirra eru einhvern vegin tvinnuð inn í þræði lífsins hjá mér, til að vera smá dramatískur. Ég kynntist þeim einmitt fyrst þegar ég sá myndina Trainspotting árið 1996, ég man hvernig klósett atriðið lét alla í salnum hreinlega finna lyktina af sér, svo mikil innlifun var að horfa á myndina.

En lagið, Born Slippy (Nuxx).. það var það sem greip mig mest. Það var eitthvað við hversu einfalt, en samt skipulagt, lagið var. Það var hrátt, hátt, einfalt og komst einfaldega ekki úr hausnum á mér næstu mánuðina.

Allt frá byrjunar stefinu, til textans, og hamrandi bassatrommunar.. Allt þetta var hrárra en það sem ég hafði verið að hlusta á sjálfur á þessum tíma, hvernig röddin flæddi yfir allt í byrjun, óvissan með hvað maðurinn var að segja (en samt söng maður með! Fullum hálsi!).. Þetta stef, það var upphafið af einhverju fallegu, nýju sambandi mínu við nýja tegund (fyrir mér) af tónlist. Techno.

Þeir og þeirra lög hafa verið á playlistum hjá mér alla daga síðan, sama hvernig skapi ég er í þá er ég alltaf til í Underworld!

Boiler Room

Það kom mér töluvert á óvart í dag er ég settist við tölvuna að sjá að það væri komið nýtt vídeó á YouTube frá Boiler Room þar sem Underworld mixaði tæpa klukkustund og hálfa af sínum bestu smellum. Fyrst frúin var sofandi og ég með góð hljóðeinangrandi heyrnartól þá ákvað ég bara að byrja daginn á því að horfa á vídeóið og hlusta á æskuna mína aftur. Og bara.. vá!

Þeir eru víst orðnir 66 og 68 ára karlarnir, en standa samt ennþá undir væntingum, ég fékk gæsahúð, hroll, tár í augun og gleði í hjarta allt í senn við að upplifa þetta show með þeim og það er það sem ýtti undir að ég er að skrifa þessa færslu.

Mig langaði bara að deila með ykkur þessum yndælis mönnum og tónlistinni þeirra.