Já, það er komið að þessum parti ársins enn eina ferðina! Árleg yfirferð yfir hvað gerðist yfir árið, tekin saman með myndum og hljóðum.
Ég vil samt vara við að það eru hellingur af myndum í þessari færslu.
Janúar
Við byrjuðum árið á því að taka selfie eins og góðum netverjum sæmir! Reyndar var þetta hátíðar kveðjan þegar klukkan var bara nokkrar yfir miðnætti.
Ég byrjaði að reyna að skrifa barnabók, sem Sunna ætlaði að myndskreyta en við náðum ekki lengra en það að ég skrifaði 4 kafla af áætluðum 10 í fyrstu bókinni og ADHD tók við. Hlutirnir gleymdust og bókin situr eftir hálf kláruð. En grunnurinn er góður og ég er með hellings undirbúning tilbúinn fyrir allar sögupersónurnar! Það hlýtur að teljast er það ekki?
Ég frétti af vinkonu minni henni Önnu Signýju að hún væri í raun ekki með neitt sem heitir afrit eða NAS hjá sér fyrir ljósmyndirnar sínar, þannig að ég ákvað að henda í eitt forritunar verkefni sem ég kalla "Skuld". Verslaði eina ódýra miniPC tölvu frá Beelink með Intel N100 CPU og setti í hana 1TB NVME disk, byrjaði svo að forrita og setja upp sem lítinn smá NAS sem afritar sig sjálfkrafa á 2 staði í skýinu.

Homelabið tók smá stökk í janúar líka. Komnar 3 smá tölvur til að taka við af einni eldri turn vél sem liggur hér á hlið. Nú keyri ég allar virtual vélar af litlu gráu smá tölvunni, önnur svörtu tölvanna keyrir Ubuntu server og eina sem hún gerir er að keyra Jellyfin media serverinn. Strákurinn gaf þessari tölvu "pabbaflix" sem nafn, enda er hann duglegur að nota hana til að horfa á efni sem er á stóru TrueNAS tölvunni þarna á botninum.

Febrúar
Stærsta sem gerðist í febrúar var að fyrri heimsókn Jóns sonar míns til okkar var um miðjan mánuðinn, hann var hjá okkur í um viku.
Svo byrjaði ég að æfa mig (á gervihúð!) í stick and poke tattoo gerð.

Ég verslaði svo líka ódýra notaða SAS diska til að stækka plássið fyrir gögn á TrueNAS servernum. Ég keypti 7x3TB SAS diska notaða frá byrgja hérna á Spáni sem tekur við eldi enterprise búnaði, bútar og selur parta. Með þessu verslaði ég líka SATA/SAS expander kort sem ég get tengt 8 diska við í heildina. Þetta var svo allt tengt og sett í notkun.

Það endaði svo með því að 3 af 7 diskunum voru faulty, svo í lok árs fann ég út að restin var eiginlega ónothæf líka. Þannig að þetta var ævintýri útaf fyrir sig.
Mars
Eitt það helsta sem gerðist þennan mánuðinn er að ZSA, sem framleiða uppáhalds lyklaborðið mitt vildi taka við mig viðtal, sem hægt er að finna hér.
Apríl
Fátt sem gerðist í þessum mánuði, ég fékk þó að uppfæra skjá setupið hjá mér, fékk að kynnast því að vera með ultrawide skjá í fyrsta skiptið og ég get sannarlega sagt það að það er engin leið heim aftur..

Maí
Þann fyrsta maí gafst ég upp á Duolingo og eyddi appinu út, var alveg kominn með upp í kok á þessum græna fugli og þeirra "AI-only" viðmóti sem fyrirtækið var að koma fram með.
Þessi fíni fugl var næstum því nappaður af ljóninu sem býr hérna, ef það hefði ekki verið fyrir snögg handbrögð Sunnu að bjarga honum frá dýrinu henni Mónu okkar.
Fuglinn hafði flogið inn á svalirnar hjá okkur þreyttur og náði ekki að fljúga út aftur tímanlega.

Við Sunna fórum líka upp á þak blokkarinnar sem við búum í til að dást að útsýninu. 2025 - Útsýnið
Júní
Sunna er svo hrifin af hljóðbókum og bað mig um að redda einhverju sem gæti spilað þær af AudioBookshelf þjóninum sem ég hýsi í homelabinu, vandamálið við þann hugbúnað er sá að á meðan þú notar vafra í tölvu þá virkar hann fínt en um leið og þú ferð að reyna að nota snjalltæki eins og síma, þá hættir hann að vera eins þægilegur. Þannig að ég nýtti mér tækifærið til að læra nýtt og byrjaði að fikta í ExpoGo, React ofl. Úr því varð appið "Oudy" sem virkaði fínt þar til að þeir sem eru að gera AudioBookshelf ákváðu að breyta algerlega hvernig API hlutinn af kerfinu þeirra virkar.
En hey! Ég lærði eitthvað á þessu! Hér má sjá tvö skjáskot af appinu:
Ég er ekki búinn að gefast upp á því, enda verslaði ég lén fyrir þetta app. Útlitið er búið að breytast aðeins síðan, en ég er að fikta í því þegar ég á dauðann tíma.
Í júní datt ég líka illilega í það! Það, verandi Gridfinity kerfið sem þú getur 3D prentað til að halda utan um hluti ofan í skúffu hjá þér. Ég notaði bæði teikningar sem voru til sem og ég hannaði mínar eigin fyrir hluti sem ég átti.

Undir lok júní komu svo tengdarforeldrar mínir í heimsókn til okkar og eyddu með okkur nokkrum dögum áður en þau fluttu aftur til Íslands tímabundið. Það var etið, það var drukkið og það var haft gaman. Komst að því að Lilja tengdamóðir mín elskar, og þá meina ég ELSKAR, Fireball líkkjörinn sem við áttum til.

Júlí
Við fjárfestum í rafmagns hlaupahjólum fyrir okkur því ég fann sett á rosalega góðu tilboði, nánast tvö á verði eins. Þetta þýddi að auminginn ég komst meira út úr húsi og gat skoðað bæinn aðeins betur. Sunna greyið þorir ekki að vera á sínu dags daglega nema ég sé með í för þar sem við verðum að nota þau á götunni eða á tilgreindum hjóla akgreinum.

En hey! Það er rosalega gaman á þeim!
Ég byrjaði líka að gera annað app sem heitir Cloudodoro, var hugsað sem Pomodoro timer fyrir þá sem eru "neuro-spicy" ef svo að orði mætti komast. Ég endaði á að setja appið á hilluna tímabundið meðan ég einbeitti mér að öðrum hlutum. En appið er svo til nánast tilbúið.
September
Mamma kom í árlegu heimsóknina sína, valdi aðeins betri tíma núna en í fyrra. Í fyrra kom hún nefnilega akkúrat þegar heitasti tími ársins er hjá okkur þar sem hitinn fer varla niður fyrir 26 gráður yfir nóttina og getur farið uppí 30-35 gráður yfir daginn. Núna kom hún 12. september þannig að þá ætti heitasti tíminn að vera liðinn.
Ég tók mig til og 3D prentaði líka hið svokallaða "Deskware" fyrir Sunnu, til að hún hafi líka staði fyrir sitt dót á sínu borði.

Október
Við fengum mesta hjartaáfall allra tíma þegar öll símtæki í húsinu fóru að öskra á okkur á sama tíma með háum skærum tón sem við höfðum aldrei heyrt áður. Þetta var aðvörun útaf veðri sem var send á öll símtæki á því svæði sem áhrif gætu haft á.

Þetta var slæmt veður, mikil rigning og mikið rok, bara ekki á okkar svæði. Santa Pola er svo vel staðsettur bær að við finnum sjaldnast við því þegar slíkar aðvaranir eru gefnar út. Þegar DANA flóðin voru hér á Spáni og það létust margir í þeim, þá rétt rigndi hjá okkur eins og það væri þægilegur 17. júní á Íslandi - aðeins hlýrri bara.
Jón kom í aðra heimsókn sína til okkar í ár og gat eytt afmælisdeginum sínum með okkur. Hann er orðin tvítugur! Hvernig má það vera?! Mér finnst ég enn vera 19 ára í viti og anda. En svona er það víst, tíminn fer bara hraðar og hraðar því eldri sem maður verður.
Undir lok mánaðar þá ákvað vatnshitarinn í íbúðinni að pissa á gólfið og hætta að halda vatni, þannig að við Sunna urðum að nýta okkur öll handklæði, fötur og fægiskóflu til að þurrka gólfið. Ég tók hitarann úr sambandi frá rafmagni og skrúfaði fyrir vatnið. Það var svo skipt um gripinn strax næsta dag hjá okkur og við getum ekki þakkað leigusalanum nógu vel með hversu snöggur hann var í að redda málunum.
Nóvember
Þetta var eiginlega mánuður þagnarinnar, þannig séð. Ég gerði óttarlega lítið annað en að vinna.
Desember
Sunna komst að því að mig hafði í tuga ára langað í bjór dagatal í desember og ákvað að panta slíkt handa mér! Ég er ekkert smá heppinn með hversu góðri konu ég er giftur. Þetta er eiginlega í fyrsta skiptið á minni fullorðins ævi að ég er í sambandi með manneskju sem vill deila með mér fyrsta sætinu, lætur mig ekki bara mæta afgangi =)

Dagatalið var geymt inn í fataskáp inn á skrifstofu frekar en að hafa það í ísskápnum þar sem þetta tekur það stórt pláss!
Sunna var dugleg að fá smakk af bjórunum sem er búið að opna og við komumst að því að hún, manneskjan sem hefur alltaf hatað bragðið af bjór, actually fílar marga af þeim bjórum sem ég fékk úr þessu dagatali. La Sagra framleiðir helling af rosalega góðum bjór, spænskur og góður!
Skeggið er búið að fá að vaxa frjálst í ár og árangurinn er ágætur, þrátt fyrir að það sé svolítið gisið, ætla að fara á stofu í janúar og láta snyrta þetta til, en þetta er að takast! Ég er að verða afalegur!

Jólin komu svo allt í einu, skyndilega og mikið fyrr en við áætluðum. Við vorum föst á því að við ætluðum að vera dugleg í ár að eiga góð jól, undirbúa tímanlega, horfa á eina jólamynd á dag, spila jólatónlist allan desember og ég veit ekki hvað. En, svo bara voru allt í einu jól og við bara slökuðum á.

Tónlist
Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekkert ef ég hef ekki tónlist og þetta árið fór ég á nýja staði. Pentagram er hljómsveit sem ég vissi ekki fyrr en á þessu ári að væri til, ég uppgötvaði hana einungis af því að það var meme með söngvara bandsins á netinu sem ég sá. Ég ákvað að fletta upp bandinu til að heyra hvað þeir spila og nýjasta plata þeirra "Lightning in a bottle" er búin að vera í reglulegri hlustun.
Hér er eitt lag með þeim:
Poppy er búinn að vera í föstu rútínunni hjá mér líka, hún gaf út plötuna "Negative Spaces" 2024 og er í ár búin að gefa út 3 smáskífur af komandi plötu sem á að koma núna 2026.
The Planets eftir Holst kom óvænt inn á reglulega listann minn í ár, ég man fyrst þegar ég heyrði þetta verk í þáttunum "The Planets" frá BBC sem ég hafði fengið lánað frá Írisi vinkonu.
Lokaorð
Þetta ár er búið að vera frekar rólegt, þannig séð, þó að færslan hér að ofan sé sæmilega löng. Við erum komin með ýmsa vana sem spánverjar halda uppi, hið svokallaða "slow life" er þar efst á lista og við elskum það. Lúr um miðjan dag um helgar hjá mér, borða seint, borða minna, vín með mat. Þetta er allt að fara betur með sálina en það sem við þekktum fyrir.
Nú er bara að vona að við gerum enn betur 2026!
Svör
Engin svör ennþá. Vertu fyrstur til að svara!
Skrifa svar
Athugið: Svör verða að vera samþykkt áður en þau birtast.