Tannpælingar revisited
Já, ég fór sko á stúfana og hafði samband við erlenda tannlækna, lenti á einum þjóðverja sem er með stofu í Ungverjalandi. Hann kemur hiiiiighly recommended, er talin vera sá besti í Þýskalandi áður en hann flutti starfsemina til Ungverjalands ma. ;)
Allavega, ég fékk gróft verðmat í þetta frá honum í gegnum email, svo kannaði ég með hótelgistingu, flug og slíkt varðandi svona ferð og vitiði hvað? Sparnaðurinn, já SPARNAÐURINN við að fara út til Ungverjalands til þessa tannlæknis og láta hann framkvæma aðgerðina, með ferðakostnaði og öllu, hljóðar upp á 2 milljónir króna!
Segjum að við hjúin tækjum okkur 14 daga ferð með Icelandair, miðað við gengið núna, til Vínar sem er í 70km fjarlægð frá þessum bæ í Ungverjalandi, þá erum við að borga ca 220.000 krónur fyrir ferðina, hótelið og ferðir milli Vínar og þessa bæjar. Aðgerðin, ótrúlegt en satt, kostar ekki nema um 270.000 krónur þarna úti. Og það merkilega er að það er verulega hár standard þarna úti í þessum bransa.
Nú er það stóra spurningin.. Ætti maður að safna og safna í einhver ár, vona að maður fái mótframlag frá TR eða verkalýðsfélaginu mínu (bæði mjög ólíkt mv. símtölin í gær). Vona það líka að bankarnir hrynji ekki og hirði ALLAN peninginn manns. Eða fara í tveggja vikna lúxus ferð til landa sem ég hef aldrei séð né farið til, vera á fjögurra stjarna hóteli, fá aðgerðina, smíðina og allt afgreitt á 5 dögum.
Miðað við sögur frá fólki sem hefur farið þarna út og til Búlgaríu, þá er þetta varla spurning. Tala allir mjög vel um vinnubrögð, hráefni og allt. Plús það að þetta sé svakalegt ævintýri!
Annars lenti ég í því að mér var svakalega illt í maganum í dag (og ég meina svakalega) og fór að pæla hvort ég hefði látið eitthvað í mig sem væri að fara svona með mig. Eina sem ég hafði borðað var smá brauð, kornflex og svo drukkið pepsí hérna meðan ég var að forrita. Ákvað að líta á stimpilinn á flöskunni sem frúin hafði verslað í gær hjá Nettó í Mjóddinni, haldiði að hún hafi ekki runnið út fyrsta september! Frúin verslaði tvær flöskur, sú seinni rennur ekki út fyrr en fyrsta mars á næsta ári þannig að þetta er frekar .. fúlt!
Bjallaði allavega í Nettó og fékk fyrst samband við skrifstofuna, þar sem ung dama svaraði mér og rabbaði við mig. Henni dauðbrá að heyra þetta sérstaklega líka þegar ég benti á það að ég hafði tekið eftir fyrir tæpum 2 mánuðum að Maarud snakkið hjá þeim væri við að að renna út eða ný runnið út, látið starfsmann vita og alles, en enn í dag væri þetta snakk þarna! Allavega, hún tók niður númer, nafn og slíkt. Sagðist ætla að tala við verslunarstjórann sem væri því miður á fundum á Reykjanesinu þar til seinni partinn, lofaði samt að hringja í mig í síðasta lagi í fyrramálið á morgun. En viti menn, hún hringdi strax aftur innan við 2 klst síðar! Hún bað mig að fara bara með flöskuna beint til Ölgerðarinnar, hún væri búin að tala við þá og þeir ættu von á mér við fyrsta tækifæri. Hún var svo sorry greyið að hún gat ekki hætt að biðjast afsökunar á þessu. Verulega gott samt að sjá svona þjónustulund, alltof langt síðan maður hefur verið vitni að einhverjum sem er svona snöggur að ganga í málin og stendur við það sem hann lofar!
Ég ætla allavega að kíkja með flöskuna í fyrramálið til Ölgerðarinnar og sjá hvað þeir segja/gera. Frúin fékk ekki kvittunina útí búð reyndar þannig að það er erfitt fyrir okkur að sanna að hún hafi keypt hana í gær. En í versta falli væri hægt að fá Nettó til að fletta upp þessum 2-3 vörum sem hún keypti því við erum með nokkurn vegin tímasetninguna á þessu í gær. Var allavega eftir 17 þar sem ég var í bílnum með börnin eftir leiksskólann.
En já, ég er líka loksins að sjá fyrir endan á stærsta forritunarverkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur! Styttist í það að ég geti ljóstrað upp hvaða síða þetta er þegar hún opnar með nýju útliti, nýrri vél, helling af nýjum möguleikum og öllu öðru sem ég er búinn að vera að forrita í þetta =D Nokkrir aðilar sem ég þekki sem hafa verið að gefa mér álit á útlitshönnun og slíku vita hvaða verkefni ég er að tala um, en ég minni enn og aftur á að hush ekki segja strax! ;)