Sköpunargáfa og þunglyndi


Fyrst og fremst

Ég byrjaði upphaflega að skrifa þessa færslu í janúar, en vegna þess hveru þung hún er og hversu erfitt var fyrir mig að skrifa hana þá er ég fyrst núna að setja hana á netið.

Gleðilegt nýtt ár!

Þetta er fyrsta færslan mín á þessu nýja ári, 2018, og er full þung. Ef það er ekki fyrir þig þá mæli ég með því að þú skoðir aðrar færslur en þessa, sér í lagi ef þú vilt eitthvað jákvæðara ;)

Hvað er þunglyndi?

Í mínu tilviki þá er það þessi lamandi tifinning af “engu” sem tekur yfir hjarta mitt og huga. Hvati hverfur algeralega og breytist úr því að vera fljúgandi aðra stundina í það að vera festur niður í myrkri og skítugri dýflissu með rusl til að éta.

OK, kannski smá ýkt, en hvernig á ég annars að útskýra það án þess að segja hreinlega hvernig mér líður?

Ég hef alltaf verið svolítið “skrítinn” ef þannig má að orði komast, allavega miðað við aðra í kring um mig. Það hefur alltaf verið auðvelt fyrir mig að draga mig inn í skel þegar ég er kominn heim, leggjast bara upp í rúm og slökkva algerlega á mér. Fyrsta minning mín af þessu var þegar ég var held ég 11 eða 12 ára gamall, það var verið að gera grín að mér í skólanum og ég bara brotnaði. Ég fór beint heim, fór beint upp í rúm án þess að hátta mig eða neitt, faldi mig bara undir sænginni og vonaðist til þess að heimurinn myndi hverfa.

Ég hef líka kynnst “rock bottom”, allavega þrívegis á ævinni. Það er þá sem ég hugsaði að heimurinn myndi vara bara fínn án mín, hver væri tilgangurinn annars á þessu lífi. Mér leið eins og ég væri ekkert og ætti ekkert gott skilið í lífinu nema sárauka, þjáningu og vonleysi.

Hvað breyttist?

Sko, fyrst af öllu, ef þú hefur upplifað þessar tilfinningar eða hugsanir þá máttu alls ekki gefast upp. Það sem hjálpaði mér einna mest var það sem ég taldi vera slæman hlut varðandi sjálfann mig upphaflega, þrjóskan mín!

Ég ákvað að ég myndi ekki leyfa neinu að draga mið niður, ekkert átti eða mátti standa í veg fyrir því að ég myndi ná mér upp og á betri stað. Þú þekkir þetta mantra er það ekki? (Get+Ætla+Skal!)

En þrátt fyrir þrjóskuna þá stoppaði hún ekki niðursveiflur ein og sér. Í dag er ég því á lyfjum líka, þunglyndis lyfjum, og ég segi það glaður að ég er geðveikur! Ég ákvað að taka orðið og breyta því í jákvætt orð fyrir mig, ég ætla ekki að leyfa heiminum eða einhverjum öðrum að segja mér að það sé slæmur hlutur.

Ég fæ enn geðsveifur, ekki misskilja mig, ég verð aldrei algerlega laus við þennan djöful sem ég hef að draga. En lyfin gáfu mér getu til að lifa nokkuð eðlilegu lífi þrátt fyrir allt sem ég hef gert og upplifað.

Hvað með sköpunargáfur

Já, það er aðal parturinn af þessari færslu, sköpunargáfan sjálf Sem ljósmyndari, eða einhver listamaður ef út í það er farið, þá getur það verið algerlega ómögulegt að vera með þunglyndi og að vera endlaust að lifa í þeirri trú að þú sért ekki nógu góð(ur) fyrir einn né neinn. Ég hef yfirstigið hræðslu mína um gagnrýni en ég er verulega illa þjáður þegar kemur að því að sjá fyrir mér hvað ég vil gera og jafnvel að komast í gír og gera það.

Þegar ég skoða síðustu tvö ár á Flickr síðunni minni þá sé ég klárlega hversu litlu ég hef deilt með heiminum. Ég hef mest megnis verið í atvinnuljósmyndun, einkaljósmyndun og svo framvegis (allt sem ég elska), en ég hef ekki verið að taka ljósmyndir eins og ég gerði áður. Ég hef verið að taka minna og minna fyrir mig sjálfan.

OK, hvað er hægt að gera?

Það er einmitt það sem er þegar úr botninum er hvolft. Það er alltaf eitthvað sem hægt er að gera er það ekki? Eins og nánast allir sem eru þunglyndir hafa upplifað, þá er alltaf einhver sem segir: “koma svo! Brostu bara! Þá verður þetta allt í lagi!” eins og það sé bara einfalt plástur sem hægt er að rífa fljótt af og allt verður allt í lagi. En það er ekki alltaf svo auðvelt, ekki bara að gera ekki hlutinn sem um ræðir heldur að finna aðra hluti sem hjálpa.

Í mínu tilviki þá geng ég um með myndavél hvert sem ég fer. Fyrri eiginkonan mín sagði mér meira að segja einu sinni hversu skrítið henni finndist það að sjá mig fara í búðina að kaupa nokkrar fernur af mjólk en ég tók samt ljósmyndatöskuna með mér í það verkefni. En samt, nýlega, þá hef ég verið að nota myndavélarnar mínar minna og minna. En það á eftir að breytast!

Ég ákvað nýverið að reyna að gera eitthvað í þessu og koma mér af stað aftur. Ég er vissulega búinn að vera á fullu í lífinu, keypti íbúð, eignaðist yndislega kærustu og margt fleirra dásamlegt. En, þetta er tíminn sem ég ætla að nota til að rækta listamanninn í me´r. Sumarið er nánast komið hérna á Íslandi og náttúran er að bíða eftir augum mínum og linsum. Ég ætla að reyna að ljósmynda meira persónulegt líka, ekki bara að nota símann minn heldur að nota myndavélar.

Ég skil við þig með þessari mynd tekna í Örnu Café á Seltjarnanesi af kærustunni minni (hægra megin) og vinkonu okkar.

Sunna og Hanna