Ný síða, nýtt land
Já! Við fluttum til Spánar!
Nánar tiltekið til Santa Pola sem er “lítill” bær við strendur Miðjarðarhafsins á suð-suð-austur strönd Spánar. Hér búa um 36.000 manns og lífið er bara allt öðruvísi hérna en á Íslandi. Fyrir það fyrsta þá er allt mikið rólegra, menn eru ekkert að flýta sér, allt gengur hægar fyrir sig. Sem að mínu mati er bara fínt þar sem það kennir manni að það þarf ekki alltaf að stressa sig yfir öllu og þetta hjálpar manni að hugsa meira fram í tímann og undirbúa sig betur fyrir það sem framundan.
Vinna?
Ég er enn að vinna í sama starfi og ég var búinn að vera í, kerfisstjóri hjá Radiomiðun, nema ég vinn fjarvinnu núna.
Það var smá vesen í byrjun þar sem ég hafði enga skrifstofu til að vinna í hérna, var fyrstu tvær vikurnar bara með fartölvu á hringlaga borðstofuborðinu í miðri stofunni, en eftir að ég kom mér upp skrifborði og góðum stóli frá IKEA hérna úti þá er málið allt annað. Nú er ég kominn með 32” 4K skjá beint fyrir framan mig á góðu og stöðugu skrifborði!
Veðrið og hitastigið
Já, það er einna mesta breytingin hjá okkur að fara frá kuldanum á Íslandi og í hitann hér á Spáni. Við erum þó ánægð með það að þar sem við erum þá erum við alveg heila 50 metra frá ströndinni þannig að það er ekki eins heitt og er meira inn til landsins. Hitinn hefur verið að fara frá 22°C á nóttunni upp í 33°C á daginn, “feels like” hitastigið hefur þó verið eitthvað hærra útaf loftraka.
Við sváfum í um tvær vikur bara með sængurver yfir okkur á nóttunni ef okkur fannst við þurfa að hafa eitthvað yfir okkur á annað borð, við enduðum svo á að kaupa okkur sængur hjá IKEA og vorum heldur betur hissa þegar þær komu þar sem þær eru svo rosalega þunnar! Þetta er varla á þykkt við flísteppin sem maður átti á Íslandi =D En þetta virkar og verður fínt í vetur þegar hitastigið á víst að fara neðarlega, allavega á nóttunni, sem ég á eftir að sjá hvort gerist eins og það er sagt eða ekki. Mér finnst lýsingar margra á hversu kalt verður á veturnar að nóttu til vera ögn ýktar, en við sjáum til hversu sannar þær eru.
Jafnvægi dags og nætur
Já, það er það sem við Sunna þurftum mest á að halda og var í raun megin drifkrafturinn við að flytja hingað. Það að vera með þynglyndi á Íslandi með þessa “ever-changing” viðveru sólar dag frá degi var hægt og rólega að sjúga úr manni allan lífsvilja, það að koma hingað og upplifa þetta jafnvægi sem er hérna er ólýsanlegt. Sálin einhvern vegin léttist og ég finn að ég er að ná að anda að nýju, ég er að ná að lifa aftur. Ég átta mig á því að ég er búinn að vera stutt hérna úti miðað við aðra sem hafa verið hérna í áratugi, en það er bara svo mikil breyting frá því að vera á Íslandi fyrir mig. Ég get nánast ekki lýst því með orðum.
Framtíðin
Já, framtíðin er óráðin enn sem komið er. Eina sem við vitum er að hérna erum við með íbúð til leigu í ár (1. ágúst 2023 - 31. júlí 2024) og við verðum hérna úti þann tíma allavega. Hvað gerist svo í kjölfarið á því verður bara að skoða og sjá.