Ný byrjun
Í dag uppgötvaði ég það að ég er ekki sá sem ég hélt ég væri. Ég hélt ég væri betri maður en raun ber vitni.
Ég hef hingað til haldið að ég hafi komið fram við fólk sem jafningja, verið kurteis við fólk, almennilegur við ókunnuga og almennt bara fínn gaur. Eftir samtal við einhvern sem stendur mér nærri áttaði ég mig á því að ég er komin svo langt frá því að vera sá maður sem ég hélt að ég væri, sá maður sem ég lofaði sjálfum mér að ég yrði, að það er varla hægt að líkja þeim tveim saman.
Ég er ókurteis, skapstór, þrasgjarn og þrjóskur. Ég rífst líka of mikið. Ég get ekki sagt að ég sé góður eiginmaður, faðir né vinur. Og þetta hryggir mig svo mikið að játa.
Þegar ég var polli og var í breiðholtsskóla, man ég eftir atviki sem gerðist þar. Ég man vel eftir því að vera í sturtu eftir leikfimi, falin útí horni af hræðslu að vera strítt eða lamin eins og var daglegt brauð hjá mér á þessum tíma. Og ég horfði á hina strákana sem voru sumir bráðþroska, aðrir ekki. Ég horfði á þá í laumi og hlustaði á hvað þeir voru að segja, þeir voru að tala um hluti eins og að „fá sér að ría“, „putta hruna“ og annað því nú verra. Þann dag lofaði ég mér að ég ætlaði ekki að vera eins og þeir. Ég lofaði sjálfum mér að sama hvernig ég liti út, sama hvernig mér gengi í lífinu, ég ætlaði ekki að vera eins og þeir. Því fyrir mér voru þeir dæmi í bók um það hvernig ætti EKKI að vera. Ég vildi vera herramaður, kurteis og prúður. Ég vildi vera þessi ideal gaur sem Disney kennir okkur um (mínus konungsríkið og allt það).. Þú veist, þessi næs gaur. Sem ég var um tíma. Mér tókst það.
En..
Síðan þá eru þó nokkuð mörg ár, síðan þá hef ég misst sjónar af því hvað skiptir mig máli.. Ég veit hvað ég hef, ég veit hvað ég hef að bjóða, ég veit hve mikið ég get gert fyrir aðra og þar af leiðandi sjálfan mig.. En ég gleymdi mér.
Það var ekki fyrr en í dag sem ég áttaði mig á þessu, á morgun hefst nýtt tímabil. Ég ætla að endurvekja gamla mig því að í hreinskilni sagt blöskrar mér sá maður sem horfir á móti mér þegar ég lít í spegilinn. Ég finn hatur bulla í maganum á mér þegar ég sé sjálfan mig og hugsa nú til baka hvernig ég hef verið. Ekki bara varðandi það að vera herramaður, heldur líka það að vera hreint út sagt fífl. Ég þarf sífellt að hafa rétt fyrir mér og á það til að grafa mér gífurlega djúpa holur með því einu að vilja ekki bekena að ég hafi rangt fyrir mér.
Annað sem ég hef tekið eftir nú í dag og áttað mig á er að minnið á mér, sem hefur verið að leika illan leik við mig undanfarin ár, er í fínu lagi. Ég hef komist á þann vanan að loka á hluti sem ég hreinlega vildi ekki, hluti sem ég nennti ekki.. Mér hafa verið sagðir hlutir í heima við, af vinum eða ættingjum og ef mér líkaði ekki við það að einhverju leyti þá hreinlega „gleymdi“ ég því.
Mér býður við mér.. Svona vil ég ekki vera.
Á morgun hef ég tækifæri að byrja að breyta mér.. Við segjum oft að við getum ekki breyst, fólk í sambandi sé sífellt að reyna og það sé það sem grandi flestum samböndum. En ég er ekki í sambandi með sjálfum mér.. Hér er ég sem ræð, því þetta er ég sjálfur. Ég vil ekki vera svona og því SKAL ég breytast.
Ég geng ekki framar með grímur, ég vil vera frjáls við slíkt böl.. ég hef grafið mér djúpa gröf og nú er eina sem hægt er í stöðunni að rísa upp og byrja að byggja mig upp. Þó ég nái ekki að verða aftur sá maður sem ég hélt og vonaði að ég væri, þá er allt betra en það helvíti sem ég er í dag.
Ég veit að þetta á kannski ekki heima á netinu, en það er annað mál. Mér er sama hver les þetta, mér er sama hvað þér finnst um þetta bull sem vellur úr mér. Það eina sem skiptir mig máli er að ég vil vera sáttur við sjálfan mig og eins og staðan er núna er ég það klárlega ekki.
Og fyrir þá sem ég hef sært, verið leiðinlegur við eða gert á hlut, þá get ég bara beðist afsökunar og vonað að þú hafir það í þér að fyrirgefa mér, ekki í dag endilega, en þegar ég á það skilið.