Ég sakna..


… þess rosalega að geta ekki bitið í epli, fengið mér hráa rófu, japplað almennilega á poppi án þess að sjúga það eins og einhver helvítis fluga. Mér þykir rosalega leiðinlegt að geta ekki borðað hvað sem er lengur, verða að synja og hafna mat sem mér hefur alla tíð þótt æðislega góður, bara af því að hann er of seigur, harður eða meiðir mig. Mest af öllu, þá sakna ég þess að geta ekki brosað án þess að fela mig bakvið hendurnar mínar.

Ég tók ákvörðun áðan að byrja á smá sjóð sem ég ætla að safna mér pening í til að fjármagna þau implönt og skeifur sem ég þarf í kjammann á mér til að ég geti farið að brosa aftur.

Fyrir þá fáu sem ekki vita það, þá er ég semsagt tannlaus í dag, búinn að vera það síðan 1. apríl 2004. Orsök þess er samt ekki eitthvað sem ég nenni að fara í hér, en þetta er allavega staðreyndin.

Í rúm 4 ár hefur mér liðið illa í kringum annað fólk, þori sama sem ekkert að kynnast fólki sem ég hef unnið með, eyði gífurlegum tíma innanhús, neita að borða úti.. þetta er bara svona smá af því sem ég upplifi.

Með því að fá mér implönt + skeifur þá næ ég aftur gamla brosinu, gamla vellíðan og ánægju.

Ég allavega fór á já.is áðan, leitaði að númerinu hjá kjálkaskurðlækninum sem ég var hjá fyrir rúmum 4 árum til að fá gróft verðmat í hve mikið þessi aðgerð kæmi til með að kosta mig ef ég færi í hana núna.. Fínt að hafa slíka tölu til að sjá hversu miklu maður yrði að safna til að ná þessu í gegn. Fékk reyndar óttarlega lítið um svör, því miður, frá símadömunni (klinkan mögulega?), vildi ekkert gefa upp nein verð, þó gróf væru, í gegnum síma. Vildi bara að ég kæmi í skoðun og þá fengi ég verð. Náði þó að draga uppúr henni að verðin væru lítið búin að breytast síðan 2004, væri enn í kringum 100-110.000 kr per implant og svo ca. 500.000 per skeifu. Total pakkinn fyrir mig væri því 14×110.000 + 2×500.000 = 2.540.000 kr takk fyrir!

Ég ætla nú að vera sniðugur samt og hringja hingað og þangað í dag til að athuga hvaða verð maður fái frá mismunandi tannlæknum.. Sjáum til hvernig það fer.

Eitt smá tuð samt í lokin, varðandi auglýsingar á vefsíðum.. Lenti í einni skelfilegri á já.is áðan þegar ég var að fletta upp númerinu hjá Sigurjóni sem reif allt úr mér. Auglýsingin er frá Reykjavíkurborg og er að hvetja fólk til að vera ekki á nöglum.. Málið er að það fór ekkert fyrir henni þarna vinstra megin á síðunni, það var ekki fyrr en ég fór óvart með músina yfir auglýsinguna að hún fór í taugarnar á mér, ég var að færa músina frá til að sjá leitarniðurstöðurnar nógu vel og fór því með hana vinstra megin við þær, þá pompar þetta helvíti út (sjá að neðan). Er þetta ekki fullgróft ?! Hvað varð um að hafa auglýsingar áberandi ÁN þess að skemma innihald síðna?!

(vantar vídeó)