Sumar á Spáni
Sumarið er komið!
Já það er sannarlega komið sumar hjá okkur hér á Spáni, þó við séum alveg við Miðjarðarhafið þá finnum við klárlega breytinguna á rakastiginu sem og hitastiginu.
Það var dagur í apríl sem við tókum eftir því að við þurftum ekki að kynda svefnherbergið lengur yfir nóttina en þess í stað þurfum við að huga að því að því að byrja að kæla íbúðina niður, allavega þau herbergi sem við erum í hverju sinni.
Þetta verður í raun fyrsta sumarið sem við upplifum hérna á Spáni þar sem við fluttum hingað um miðjan ágúst í fyrra. Við erum samt ekki að upplifa fullan hita eins og er meira inn til landsins, við höfum hafgoluna til að kæla okkur niður.
(and-)Samfélagsmiðlar
Þeir sem þekkja mig vita að ég er búinn að minnka verulega viðveru mína á þessum helstu samfélagsmiðlum þar sem stórt fyrirtæki er á bakvið, þmt. Facebook, Snapchat, Instagram ofl. Mér hefur ekkert líkað við hvert þetta allt stefnir. Facebook kíki ég inn á kannski á 2-4 daga fresti og ég fylgist því lítið með hvað er í gangi þar, ég er jú með Facebook Messenger á símanum, en væri voðalega til í að losna við það ef ég á að segja satt.
Mér hefur fundist þessir samfélagsmiðlar draga mig niður, þetta eru allt svo falleg, vel valin augnarblik í lífi fólks og sýnir þegar allt er að gerast á besta veg, það deilir enginn myndum, vídeóum eða texta af því sem fer illa í sínu lífi. Ég veit, rétt eins og þið að þetta er ekki raunsýn inn í líf allra í kring um mann og að maður á ekki að láta þetta hafa svona áhrif á sig, en undirmeðvitundin og veika sjálfið hlustar ekki á rök eins og þið vitið.
Ég er því að reyna að kúpla mig meira og meira í burtu frá þessu öllu og reyna að fara til baka í að hringja í fólk, senda SMS og reyna að hitta á fólk í raunheimi. Ég meina, hver man ekki eftir því þegar maður fór í heimsókn til fólks þegar maður var yngri, þetta er eitthvað sem ég þekki ekki sem fullorðin einstaklingur lengur. Jú jú, ég mun nota einhver af þessum tólum, ma. WhatsApp því það er svo mikið notað hérna úti á Spáni, Messenger fyrir vídeóspjall við þá sem ég þekki sem eru ekki með iPhone og Facetime, en ég vil einfalda lífið mitt aftur.
Ég hef líka verið að færa mig yfir í samfélagsmiðla þar sem ég stýri mínum gögnum þmt. Mastodon og nú nýjast Pixelfed. Ég er búinn að vera með Mastodon þjón fyrir Vanlife heiminn í rúmt ár og það hefur gengið vel, vel tekið í það og vefurinn er vel notaður. Og já, ég átta mig á því að þessi nöfn kveikja ekki endilega á neinum perum hjá fólki, Mastodon er í raun svipað og Twitter - smá færslu (500 stafir) þar sem fólk er að deila öllu og engu með öðrum, eltir aðra og svoleiðis. Pixelfed er svo vettvangur til að deila myndum og vídeóum með öðru fólki, í raun útskipting á Instagram.
Athyglin og skortur á henni
Við höfum öll séð stutt vídeó á netinu, hvort sem það er á TikTok, Instagram Reels, Facebook video eða Youtube Shorts, oft á tíðum voru þetta 10 sek ör-video sem eru fyndin eða áhugaverð á einhvern máta. Svo fóru þau að lengjast en alltaf eru þau samt stutt. Ég er ekki frá því að þetta sé að fara með kollinn á mér og einbeitinguna sem er af skornum skammti fyrir þökk sé ADHD. Ég á það til að sökkva í einhverja stuttvídeóa gildru, skoða eitt vídeó, svo annað og allt í einu eru 2-3 klst horfnar af deginum. Mig langar ekki að vera svona.