Um mig
Ég heiti Axel Rafn og er fæddur 1979, ég er tveggja barna faðir, lærður kerfisstjóri og atvinnuljósmyndari og starfa sem Linux kerfisstjóri hjá rótgrónnu fyrirtæki í Reykjavík.
Árið 2023 fluttum við hjónin til Spánar eftir að hafa búið í húsbíl á Íslandi í rúmt ár.
Ljósmyndun
Ég hef haft brennandi áhuga alla mína ævi af tveimur hlutum, ljósmyndun og tölvum. Ég byrjaði fyrst að fikta við ljósmyndun áður en ég varð táningur þegar ég fékk fyrstu 35mm myndavélina mína með áfastri 28mm linsu 11 ára og frá því var engin leið til baka.
Bakgrunnur minn sem atvinnuljósmyndari hefur aðallega verið í brúðkaups- og portrettmyndun. En, í þeim frítíma sem ég hef þá reyni ég að næra þennan svamp sem ég kalla heila, sá sem hefur endalausa þörf á nýjum reynslum. Ég sæki reglulega námskeið á netinu ásamt því að kynna mér og fylgjast með nýjungum í ljósmynda heiminum.
Ég hef stundað nám við ljósmyndun hjá The New York Institute of Photography og Menntaskólanum á Tröllaskaga og er útskrifaður frá NYIP með gráðu í atvinnuljósmyndun.
Á Íslandi hef ég rekið ljósmyndafyrirtækið mitt, CREO Ljós ehf, til nokkra ára (stofnað maí 2019). Ég hef verið með stúdió aðstöðu, fyrst í Reykjavík og svo seinna á Akranesi þegar við fluttum þangað.
Sem stendur, þá er ég ekki með stúdió þar sem að ég flutti út til Spánar og er ég að endurskipuleggja hvernig ég vil gera þetta í komandi framtíð.
Tæknin og tölvurnar
Ég á minningu frá því að ég var yngri, þegar pabbi keypti fyrstu tölvuna fyrir heimilið og það var hægt að forrita í henni. Það var Yashica YC-64, en þar byrjaði ég rólega að forrita í BASIC. Það var þá sem ég fann áhuga á tölvum og tækninni sem þær eru byggðar á.
Með árunum urðu tölvurnar sem ég hafði aðgang að fleirri og öflugri. Þegar ég fór í framhaldsskóla fór ég í Iðnskólann í Reykjavík (nú Tækniskólinn) þar sem þeir virtust vera þeir einu sem voru með almennilegt, hands on, tækninám sem tengdist forritun og tölvum. Þannig byrjaði ég á Tölvunarfræðibraut II árið 1994.
Forritunartungumálin sem ég lærði voru meðal annars: Turbo Pascal, Delphi, Assembler og C. En þau gripu mig ekki eins mikið og þau tungumál sem voru að byrja að koma upp þegar netið fór að verða í boði á hverju heimili. Ég fann mig meira í vefforritun, byrjaði að læra sjálfur HTML, seinna meir CSS og PHP.
Í dag er ég að reyna að koma mér meira inn í C/C++ ásamt öðrum tungumálum til að geta unnið með hugbúnað á Linux.
Ég hef verið að forrita undir merki muto.is sem er mitt "alter-ego" ef svo mætti að orði komast og ég held úti annari síðu þar sem ég blogga á ensku um hugbúnað og tæknina sem ég er að nota og forrita í.