Ég er lélegur penni


Já, það verður að segjast að ég hef verið hrikalega lélegur penni þetta árið, í lok þessarar færslu þá sagði ég að ég hefði lofað mér að skrifa 52 færslur á þessu ári! Nú er komin september og ég er hér að skrifa þriðju færsluna!

Þetta hefur allt með athyglina, ADHD og skort á einbeitingu að gera verð ég að segja. Það er talað svolítið um “Brain Rot” nýverið á netinu og í miðlum og ég verð að segja að það passar akkúrat við það sem ég er að glíma við. Það verður samt að segjast að ég er langt frá því að vera einhver nýgræðlingur hér í netheimum, hef alltaf eytt miklum tíma í tölvum og þá líka á netinu, en þessi stutt vídeó sem maður er búinn að sökkva í eru alveg að fara með mig, enda er ég búinn að klippa á það núna.

Ég fann það núna fyrir um 2 vikum mest, þegar ég áttaði mig á því að ég hafði verið að forðast að lesa greinar og færslur á netinu sem voru meira en skjáfylli.. þá fattaði ég hversu langt leiddur ég væri og hversu stuttur athyglis þráðurinn væri orðinn. Málið er að ég var frekar duglegur hérna árum áður að skrifa reglulega á bloggið mitt, gat dælt út efni sem mér fannst merkilegt, um hluti sem ég var að læra og fikta í. En í dag er þetta einhvern veginn öfugsnúið. Ég leitast frekar eftir að finna stutt vídeó til að læra um flókna hluti, þó ég viti það innst inni að það eru bara “dumbed down”, vatns þynntar leiðbeiningar. Ég er ekki lengur að liggja yfir leiðbeiningum beint frá framleiðanda / þess sem þróar hlutinn sem ég er að læra á. En þetta er hlutur sem ég stefni á að laga.

Auka færsla!

Já, ég fattaði svo þegar ég settist niður til að skrifa þessa færslu að ég hafði aldrei sett inn færsluna sem ég skrifaði í júní, þannig að þið fáið tvær færslu á verði einnar, frítt!

Smá tónlist

Þessa dagana hef ég dottið svolítið í tónlistarstefnu sem kallast “Liquid Drum n’Bass”, leyfi hérna einu virkilega góðu að fljóta með til að dreifa aðeins boðskapnum.