Kallarðu þetta plötudóm?
Mér varð á að lesa Fréttablaðið í dag og rakst þar á þessa grein sem, skv. útliti og staðsetningu í blaðinu ætti að vera plötudómur fyrir nýja diskinn með The Prodigy, Invaders must die. Sem ég sjálfur hef verið að hlusta stíft á núna undanfarna daga. En nei, það litla sem er “fjallað um” nýja diskinn eru eftirfarandi málsgreinar:
Vinsælasta hljómsveit danstónlistarsenunnar, The Prodigy, snýr nú aftur með nýja plötu, Invaders must die. Þetta er fyrsta plata bandsins með upprunalega liðinu síðan platan Fat of the land kom út árið 1997. Dr. Gunni skoðaði málið.
Á nýju plötunni, þeirri fimmtu, þykir The Prodigy snúa aftur til rótanna. Að nafninu til gaf bandið síðast út plötu árið 2004, Always outnumbered never outgunned, en þá var Liam einn á ferð. Hann þarf greinilega vini sína með til að rétti Prodigy-andinn galdrist fram og hefur sagt að Always outnumbered sé botninn á ferli sínum.
Meira er í raun ekki sagt um nýja diskinn.. Engin lagalisti, ekkert minnst á þau tvö lög sem er búið að gefa út sem singles af plötunni eða neitt..
Ef þetta telst eðlilegt, þeas. að tuða um einhverjar sögur af meðlimum hljómsveitarinnar, minnast á gamla hluti, þegar inngangur fréttarinnar fjallar um nýjan disk með hljómsveitinni, þá finnst mér ritmenning íslendinga vera dottin verulega langt niður í gæðum.
Skv. inngangi greinarinnar þá er það Dr. Gunni sem skrifar hana, um hann er ekkert slæmt að segja. Ég hef lengi vel fílað skrif hans í blöðum og á netinu, fannst hann líka frábær í td. Popp Punkti sem var sýndur lengi vel á Skjá Einum. En mér finnst samt lágkúra að fjalla í raun ekkert um “efni greinarinnar” ef svo mætti að orði komast.
Ég hef reyndar aldrei gert einn né neinn plötudóm, en ég skal allavega reyna það ;D
Diskurinn saman stendur af ellefu lögum og byrjar hann á titillagi disksins, Invaders Must Die, sem er hálfpartinn líkt Spitfire af síðasta disk The Prodigy. Grípandi lag með þessum klassíska og þunga “Liam trommuslætti”.
Næst á disknum er nýji single’inn, lagið “Omen”, há skríkjandi hljóð í bland við þungan bassa og harðar trommur. Það sem kemur mest á óvart í þessu lagi er undirspilið sem heyrist af og til í laginu en endar líka lagið. Í myndbandinu er einmitt ung stelpa, dökk klædd og drungaleg að spila þetta undirspil. Alltaf þegar ég heyri lagið er mér hugsað til þessarar stelpu og ég fæ nettan hroll upp bakið við þá hugsun.
Næstu tvö lög eru óttarlega slöpp, Thunder og Colours. Thunder byrjar vel en endar einhvern vegin í lausu lofti, vantar meiri heild í lagið þegar fyrsta mínútan er liðin. Colours aftur á móti er nokkurn vegin sama lag (takturinn aðallega þó) og lagið Memphis Bells af Always Outnumbered Never Outgunned. Örlítið hraðara lag þó, en floppar verulega við fyrstu hlustun.
Take Me To The Hospital er næsta lag á disknum, en titill þess lags er einmitt búin að vera áberandi krotaður á lok annarar fartölvunnar sem Liam notar á tónleikum The Prodigy. Lagið er of gamalt eitthvað, eins og það hafi átt að koma út á hátindi Rave safnplötunnar sem innihéld smelli á við “Opus 3 - Fine Day”, “Kicks Like A Mule - The Bouncer” ofl laga. Sömplin sem eru notuð í laginu virðast öll vera frá því tímabili og falla einhvern vegin ekki inn í þá mynd sem diskurinn í heildina er að reyna að byggja upp.
Lag númer sex er svo Warriors Dance, byrjar með blásturshljóðfæri sem minnti mig strax á Black Flute með Leftfield (af disknum Leftism frá árinu 1996) og því fékk ég væntingar um að lagið ætti að vera gott. Virkar vel á mann þar til takturinn byrjar þegar um mínúta er liðin af laginu. Aftur er Liam að reyna að nota sömpl sem eru löngu útbrunnin og ofnotuð. Lagið er svo líka einum of mikil endurtekning.
Nú er svo komið að því lagi sem ég vil meina að verði næsti single af disknum, lagið er númer sjö á disknum og heitir Run With The Wolves. Þar er Flint kominn með míkrafóninn að garga að manni stöðluðum línum álíka og “Whatcha gonna do when the hounds’a callin’?”. Þetta lag nær hinsvegar að rífa upp álit manns á disknum í heildina eftir slæmu lögin sem á undan eru á disknum. Hresst og grípandi lag, gömul og ný sömpl, drullugóðir taktar og Flint einhvern veginn smellpassar þarna inní. Röddin hans og framburður á enskunni er alltaf jafn skemmtileg =)
Næst er svo kallað “reprise” útgáfa af Omen. Mikið rólegri útgáfa, byggir meira á öllu öðru en trommum og trommutöktum. Ágætis útfærsla á Omen laginu.
Worlds On Fire er næsta lag og það hefur heyrst ansi mikið á tónleikum nýverið með The Prodigy. Mér skilst að það sé notað rosalega mikið sem intro lag til að kynda undir fólkinu. Vel heppnað lag, Maxim gargandi og fær að njóta sín. Syntharnir tveir sem eru notaðir í miðju lagi takast vel saman. Eru af sitt hvorum enda skalans en ná að spila saman mjög vel. House stabs svo í laginu sem eru alger snilld. Þarna tekst Liam að nota blöndu af gömlum og nýjum hljóðum mjög vel, nær að byggja upp rífandi stemmingu með laginu.
Piranha er svo næst síðasta lagið á disknum. Mér persónulega finnst það lag vera með bestu lögunum á disknum. Hresst, grípandi, mjög góðir taktar undir. Maður varla ræður við sig þegar maður hlustar á það, langar verulega að hreyfa sig og dansa eða gera eitthvað af sér. Hálfgerður Sci-Fi fílíngur í miðju lagi sem er svo drepinn og harður takturinn kikkar aftur inn.
Loka lag disksins heitir svo Stand Up og verður að segjast að það fellur einhvern veginn ekkert inní þá tónlistarstefnu sem The Prodigy hefur ætíð verið í. Þetta er á engan máta danstónlist, meira svona.. afslappað hip-hop bragur af því. Byrjar með sampli úr einhverju lagi þar sem brass hljóðfæri fá að njóta sín, svo kemur frekar þungur hip-hop/trip-hop taktur inn og einhver nýleg hljóð. Minnir mann soldið á hvernig Chemical Brothers voru á þeim tíma sem þeir gáfu út Exit Planet Dust. Fínasta lag, en kemur eins og álfur útúr hól þegar maður ber það saman við öll hin lögin á disknum.
Í heildina litið þá er þetta mjög góður diskur. Þetta er á engan máta gamla Prodigy sem héldu tónleika hér á fróni í denn, en það eru þó vissir taktar á disknum sem vitna í þann gamla tíma. Tímarnir breytast og mennirnir með þeim og það verður að segjast að Liam, Flint og Maxim hefur tekist mjög vel með þessum disk. Þarna mætast tveir heimar, sá nýji og sá gamli draumkenndi.
Ef ég ætti að gefa disknum einkunn þá myndi ég segja 8 af 10 mögulegum. Þau “slæmu” lög sem eru á disknum ná ekki meðaltalinu niður sökum hversu snilldarleg hin lögin eru. Efst þar á blaði eru þó Omen, Invaders Must Die, Run With The Wolves og Piranha.
Ég ætla allavega að vona að einhverjum finnist þetta skárra en greinin hans Dr. Gunna í Fréttablaðinu ;)