Jet Black Joe og minningar


Fyrst, aðvörun

Ég hef ekki skrifað í langann tíma og er að reyna að koma frá mér efni í formi hugsana, minninga og tilfinninga, þessi færsla er sú fyrsta sem ég skrifa í þessu formi og þetta gæti virkað ruglingslegt, þar sem ég virðist flakka úr einu í annað. En svona er það að vera með ógreint ADHD, engin lyf og bara sjálfur að reyna að skipuleggja og skrifa niður hluti.

You have been warned ;)

Inngangur

Ég man að ég var með svart lítið útvarpstæki áður en ég fermdist, svona “boombox style” tæki, hátalarar sem vísuðu fram á sitt hvorum endanum, kassettu spilari á milli, allir takkar og stillingar ofan á tækinu. Tækið tók bæði rafmagn beint inn frá vegginnstungu en svo gat það líka notað nokkur D batterý og virkað hvar sem var.

Ein af fyrstu kassettunum sem ég átti var fyrsta platan með Jet Black Joe, sem hét bara Jet Black Joe. Sú spóla var held ég mest spiluð af öllu sem ég átti. Almennilegt rokk og ekki skemmdi fyrir að þetta var íslenskt!

Smá um mig

Ég átta mig á því að ekki allir sem lesa þetta vita það um mig að tónlist og lykt er það tvennt sem heilinn á mér tengir sem mest við minningar. Ég er ekki það heppinn að geta verið með það sem ég kalla “eðlilegt” minni, þegar fólk getur bara hreinlega munað hvað sem er með því að leita í kollinum á sér. Hjá mér er sumt þannig, annað ekki. Almennir hlutir eins og hvernig á að skrifa, hjóla, tala og slíkt er náttúrulega bara “vöðvaminni”, en að rifja upp hluti um eitthvað ákveðið málefni er mér mjög erfitt. Nema að ég hafi myndað einhverja tengingu við td. tónlist eða lykt og get rifjað upp þann hluta minningarinnar, þá skyndilega (ekki alltaf samt) flæðir inn minningin sem ég er að reyna að nálgast.

Sterkastar eru minningarnar sem eru tengdar við tónlist hjá mér.

Tölum um tónlist og minningar

Hljómsveitin Jet Black Joe er einhvern veginn ofin inn í líf mitt án þess að ég hafi áttað mig neitt sérstaklega á því á sínum tíma. Eins og ég minntist á hér að ofan þá eignaðist ég fyrstu plötuna þeirra í formi kassettu, þetta var fyrir fermingu veit ég fyrir víst þar sem ég fékk græjur í fermingargjöf en ég man eftir svarta boomboxinu mínu þegar ég hlustaði á þessa plötu.

Ég er samt ekki viss hvort ég hafi vitað hvað músíktilraunir voru á þessum tíma en ég tengi þær rosalega við þessa fyrstu plötu þeirra.

Ég man samt að ég bjó í Eyjabakka 1, herbergið mitt var beint fyrir ofan innganginn í stigaganginn þannig að ég heyrði meira en aðrir í fjölskyldunni þegar fólk var að koma heim, koma í heimsókn eða að bera út póst. Ég á einhverjar minningar af því að sitja á gluggasillunni og horfandi út í “u´ið” (blokkirnar í Bökkunum eru allar í laginu eins og U), þegar það snjóaði og horfði á snjóinn falla meðan ég hlustaði á útvarpið og spólurnar mínar. Mig rámar í rúmið og skrifborðið sem ég átti, við systir mín fengum eins pakka eitt skiptið, rúmið var svefnsófi, frauð kassa dýna uppi og þrjár stórar pullur fyrir bakið, svo var sængin, koddinn og lakið geymt í stóru skúffunni undir sófanum. Það voru tvær skúffur, ein sem var 2/3 af breiddinni og ein sem var 1/3 ca.

Ég man eftir að hafa sungið frekar mikið með flest öllum lögunum á plötunni þegar ég þorði, eitt lag söng ég þó ekki nema að ég væri einn heima.

Breiðholtið og Breiðholtsskóli koma mikið upp í minnið þegar ég hlusta á þessa plötu enn þann dag í dag.

You ain´t here

Önnur plata þeirra félaga var að mér virtist meira í áttina að því sem ég þekki í dag sem experimental rock eða acid rock, þeir voru að prófa nýja hluti og ég fílaði það í tætlur. Þó það sé ekki nema ár frá fyrstu plötunni þeirra þá var kominn annar tónn í þá, þó að orgel spilið setji vissulega alltaf svolítið unique blæ á lögin eins og þeim einum var lagið.

Lögin á plötunni skiptast svolítið upp í það að vera gerð eftir “formúlu” ef svo mætti að orði komast, en svo komu lög sem meikuðu ekkert sense sama hvernig litið var á það ef maður bar saman við “eðlilega” tónlist á þessum tíma.

Þegar þessi plata kom út var ég öðru hvoru megin við að flytja úr Breiðholtinu og upp í Mosfellsbæ þar sem foreldrar mínir höfðu keypt fokhelt hús, part af raðhúsi með 4 íbúðum held ég. Þar fékk ég að hjálpa við að smíða mitt eigið herbergi, sem ég fékk svo að mála líka þegar að því kom. Það herbergi endaði fjólublátt og neongrænt, sem mér fannst æðislegt!

Ég man að mér fannst við pabbi aldrei hafa verið jafn nánir og gott á milli okkar og þá.

Ég tengi líka minningar frá þessari plötu mikið við Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar sem ég gekk í, Ragnheiður Ríkharðs var skólastjóri man ég og hún kenndi okkur einhverja íslensku tíma í 10. bekk líka þegar veikindi voru í gangi hjá fasta kennaranum sem við vorum með.

Þess má geta að vetrinum var skipt í 3 annir í Gaggó Mos en ekki 2 eins og á flestum öðrum stöðum, þetta þýddi að ég byrjaði á önn 2 í 9. bekk eftir að hafa verið í fríi frá skóla í eina eða tvær vikur. Ég man að mér fannst þetta geggjað, að vera í fríi þegar aðrir voru enn í skólanum. Það var samt fyrst þarna sem mér fór að finnast gaman í skólanum, ég fílaði þá vini sem ég eignaðist og mér fannst ég vera meira öruggur en ég hafði upplifað áður. Lenti jú í einhverjum ryskingum þarna í blá byrjun enda var ég “nýji” gaurinn þarna og enginn vissi hvar hann hefði mig. En það varð aldrei neitt meiri háttar svo að ég muni, annað en hvernig var í Breiðholtsskóla, sem er önnur saga að segja frá.

Margar af þeim minningum sem poppa upp hjá mér af þessum tíma tengjast þessar plötu, sem og þeirri næstu í röðinni.

Fuzz

Hér var ég kominn í 10. bekk, all-boys tilraun í skólanum. Stráka bekkurinn, svo var blandaður bekkur og stelpu bekkur. Árgangurinn komst vel í þessa þrjá bekki og einhverjar niðustöður komu úr þessu tilraunastarfi, fékk að heyra það frá Hönnu aðstoðarskólastjóra að okkur strákunum gengi betur en búist var við og einkunnir okkar voru hærri að meðaltali ef miðað væri við fyrri árganga held ég, frekar en okkur sjálfa árum áður.

Þessi plata einkennist af tilraunaskap, hér fara Jet Black Joe enn lengra með tilraunir, sjá td “maniac” tríóið af lögum á plötunni, “Shoot the duck down in Amsterdam” og auðvitað titillag plötunnar, “Fuzz”. Samt inn á milli voru snilldar lög líka sem náðu upp á vinsældarlistum, “Bedroom Bugs” varð ansi vinsælt, “Wasn´t for you” líka og hver gleymir vinsælasta laginu “Higher and higher”.

Á þessum tíma var ég farinn að hlusta á mikið harðari tónlist líka og ég var farinn að finna mig meira í “grunge” og “death metal”. Soundgarden, Nirvana og Death voru í miklu uppáhaldi.

Minningar sem koma af þessu tímabili eru oftar en ekki tengdar við mikinn snjó, Kraft galla, skólastrætó sem var alltaf með móðu á gluggunum og skíta kuldi inn í, kókómjólk og langloka með pítusósu úr kælikistunni sem ég held að hafi verið rekin af nemendafélaginu eða álíka í skólanum. Ég man enn hvernig gamla brauðið var í langlokunum, mikið stökkara yfirborðið á brauðinu og það virkar miklu meira á þeim í minninu. Allavega ef maður skoðar hvað er í dag.

Á þessum tíma eignaðist ég nokkra virkilega góða vini sem allir kynntu mig almennilega fyrir nýjum tónlistarstefnum og hljómsveitum.

Baldur hjálpaði mér að læra á dauðarokkið og hart pönk - Death, Extreme Noise Terror og Bursum.

Kristján kynnti mig fyrir The Doors, Led Zeppelin og öðru góðgæti frá þeim tímabili.

Sigursteinn kynnti mig almennilega fyrir Metallica, Megadeath og álíka nöfnum.

Enn þann dag í dag held ég gríðarlega mikið upp á þau bönd sem þeir kynntu mig fyrir og ég hlusta reglulega á þessa tónlist.

Lokaorð

Ég elska þessar minningar sem hafa sprottið upp þegar ég er búinn að vera að hlusta á þessar plötur núna þegar ég skrifa þessa færslu/grein. Það sem stendur samt efst í hug og hjarta er hvað ég skammast mín að hafa ekki ræktað sambönd mín við vini mína í gegnum árin. Þeir vinir sem ég eignaðist þarna í Mosó hafa alltaf verið mér kærir þó að ég hafi ekki sýnt það né haldið sambandi, nema jú yfir Facebook en það varla telst.